Óttast svínaflensuna meira en fuglaflensuna

Grannt er fylgst með flugfarþegum sem koma frá Mexíkó.
Grannt er fylgst með flugfarþegum sem koma frá Mexíkó. Reuters

Svínaflensufaraldurinn vekur meiri ugg heldur en fuglaflensan vegna þess hversu hratt hún breiðist út á milli manna, að sögn ástralsks smitsjúkdómasérfræðings, Pauls Kelly. Mexíkósk heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest að 103 séu látnir vegna svínaflensunnar og hefur hún dreifst hratt út á meðal íbúa landsins.

Paul Kelly  segir að dánartíðni þeirra sem smitast af svínaflensu sé lægri heldur en meðal þeirra sem smitast af fuglaflensu en að sama skapi breiðist svínaflensan mun hraðar út heldur en fuglaflensan. Kelly segir að fuglaflensa smitist yfirleitt ekki á milli manna en annað virðist vera uppi á teningnum hvað varðar svínaflensuna.

Stjórnvöld víða hafa boðað hert eftirlit með farþegum milli landa og þá ekki síst ef fólk er að koma frá Mexíkó og Bandaríkjunum. Um fjögur hundruð manns eru á sjúkrahúsi í Mexíkó sýktir af svínaflensu og fylgst er með 1.614 til viðbótar. Tíu hafa veikst af svínaflensu á Spáni en í Bandaríkjunum hafa tuttugu tilfelli verið staðfest. Þar af átta í New York, sjö í Kaliforníu, tvö í Texas, tvö í Kansas og eitt í Ohio. Í Kanada eru sex tilfelli staðfest en enginn þeirra hefur þurft að leggjast inn á sjúkrahús.

Níu námsmenn og kennari frá Auckland í Nýja-Sjálandi veiktust af svínaflensu eftir að þau komu frá Mexíkó. Fylgst er með níu manns sem komu til Kólumbíu eftir að hafa dvalið í Mexíkó. Er talið að þeir séu allir smitaðir.

Tveir Bretar eru á sjúkrahúsi í Skotlandi eftir að hafa verið greindir með flensu eftir heimkomu frá Mexíkó. Einn er talinn sýktur í Brasilíu og tvær konur í Ástralíu. Fjórir hafa greinst smitaðir af svínaflensu í Frakklandi en þeir voru allir nýkomnir frá Ameríku. Einn er á sjúkrahúsi í Ísrael vegna svínaflensu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert