Framkvæmdatjórn Evrópusambandsins segir, að ferðamenn ættu að varast að fara til þeirra svæða þar sem svínaflensa hefur komið upp. Flensan geisar nú aðallega í Mexíkó og Bandaríkjunum en í dag var staðfest að hún hefði borist til Spánar en um er að ræða karlmann, sem nýlega var í Mexíkó. Íslenska landlæknisembættið fylgist náið með útbreiðslu veirunnar.
Androulla Vassiliou, sem fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn ESB, mælti með því í dag að fólk færi ekki að nauðsynjalausu til svæða þar sem sjúkdómurinn geisar.
Þýska ferðaskrifstofan TUI hefur aflýst ferðum til Mexíkóborgar til 5. maí og þá munu skemmtiferðaskip á vegum skrifstofunnar ekki koma við í Mexíkó á næstunni.
Landlæknisembættið hefur sett upplýsingar um svínaflensu á heimasíðu sína og kemur þar fram, að um sé að ræða bráða sýkingu í öndunarvegum svína af völdum inflúensu A veiru. Dánartíðnin sé lág í svínum og þau nái sér venjulega á 7–10 dögum frá upphafi veikinda. Svínaflensa smitist venjulega ekki milli manna en óvenjulegt sé, að flensan nú virðist smita greiðlega manna á milli.
Landlæknir segir, að viss samsvörun sé á milli H1N1 í mönnum og nýju H1N1 svínainflúensunnar. Inflúensubóluefnið, sem sé notað hér á landi, beinist gegn H1N1 og því sé hugsanlegt að það geti veitt einhverja vörn gegn svínainflúensu. Það sé þó ekki vitað og þurfi að rannsaka nánar.
Svínainflúensan sem nú geisar í Banaríkjunum og Mexíkó er næm fyrir veirulyfjunum Tamiflu og Relenza en ónæm fyrir svonefndum amantidín-lyfjum. Á Íslandi eru til lyfjabirgðir af Tamiflu og Relenza fyrir þriðjung þjóðarinnar.