SÞ segja hættu á heimsfaraldri

Ban Ki-moon. framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í dag að svínainflúensufaraldur í Mexíkó og Bandaríkjunum gæti breiðst út og orðið að heimsfaraldri.

„Við höfum af því áhyggjur, að veiran geti valdið nýjum faraldri. Hann gæti orðið vægur en gæti einnig orðið alvarlegur," sagði Ban. „Við vitum ekki enn hvernig mál kunna að þróast en það veldur áhyggjum að flestir þeirra, sem hafa látist í Mexíkó, voru ungir og hraustir einstaklingar."

Nú er talið að 149 manns hafi látist í Mexíkó af völdum svínaflensu. Hefur mörgum skólum, dýragörðum, söfnum, kirkjum, dómhúsum og veitingastöðum nú verið lokað í Mexíkóborg þar sem um 20 milljónir manna búa. Þá bárust fréttir af því nú síðdegis, að öllum skólum í landinu verði lokað tímabundið.

Marcelo Ebrard, borgarstjóri Mexíkó, sagði að rætt yrði um frekari lokanir fyrirtækja síðdegis.

Tugir manna víða um heim eru undir eftirliti eftir að hafa veikst skömmu eftir heimkomu frá Mexíkó. Eitt staðfest tilfelli hefur greinst á Spáni.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert