WHO hækkar viðbúnaðarstig

00:00
00:00

Alþjóða heil­brigðis­stofn­un­in, WHO, hækkaði í kvöld viðbúnaðarstig vegna far­sótt­ar­hættu í heim­in­um, úr 3. stigi í 4. stig. Í því felst að auk­in hætta er tal­in á, að svínaflensu­far­ald­ur­inn í Mexí­kó og sunn­an­verðum Banda­ríkj­un­um breiðist út og verði að heims­far­aldri.

Marga­ret Chan, fram­kvæmda­stjóri WHO, ákvað að hækka viðbúnaðarstigið eft­ir fund, sem hald­inn var með in­flú­ens­u­sér­fræðing­um í Genf síðdeg­is. 

Keiji Fukuda, einn af fram­kvæmda­stjór­um WHO, sagði við blaðamenn að hækk­un viðbúnaðarstigs­ins væri vís­bend­ing um, að tal­in væri hætta á að heims­far­ald­ur in­flú­ensu bryt­ist út en gæfi jafn­framt til kynna, að sá far­ald­ur væri ekki haf­inn.  Skil­greind viðbúnaðarstig WHO eru sex. 

Fukuda sagði, að á þessu stigi mála væri ekki raun­hæft að reyna að hefta út­breiðslu veik­inn­ar með því að loka landa­mær­um vegna þess að in­flú­ens­an hefði þegar borist til nokk­urra annarra landa.

Staðfest svínaflensu­til­felli hafa greinst í Mexí­kó, Banda­ríkj­un­um, Kan­ada og á Spáni. Talið er að um 150 dauðsföll megi rekja til sjúk­dóms­ins í Mexí­kó en ekki er vitað um dauðsföll ann­arstaðar. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert