WHO hækkar viðbúnaðarstig

Alþjóða heilbrigðisstofnunin, WHO, hækkaði í kvöld viðbúnaðarstig vegna farsóttarhættu í heiminum, úr 3. stigi í 4. stig. Í því felst að aukin hætta er talin á, að svínaflensufaraldurinn í Mexíkó og sunnanverðum Bandaríkjunum breiðist út og verði að heimsfaraldri.

Margaret Chan, framkvæmdastjóri WHO, ákvað að hækka viðbúnaðarstigið eftir fund, sem haldinn var með inflúensusérfræðingum í Genf síðdegis. 

Keiji Fukuda, einn af framkvæmdastjórum WHO, sagði við blaðamenn að hækkun viðbúnaðarstigsins væri vísbending um, að talin væri hætta á að heimsfaraldur inflúensu brytist út en gæfi jafnframt til kynna, að sá faraldur væri ekki hafinn.  Skilgreind viðbúnaðarstig WHO eru sex. 

Fukuda sagði, að á þessu stigi mála væri ekki raunhæft að reyna að hefta útbreiðslu veikinnar með því að loka landamærum vegna þess að inflúensan hefði þegar borist til nokkurra annarra landa.

Staðfest svínaflensutilfelli hafa greinst í Mexíkó, Bandaríkjunum, Kanada og á Spáni. Talið er að um 150 dauðsföll megi rekja til sjúkdómsins í Mexíkó en ekki er vitað um dauðsföll annarstaðar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert