Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Arlen Specter hefur lýst því yfir, að hann sé genginn úr Repúblikanaflokknum og til liðs við Demókrataflokkinn. Þetta þýðir að demókratar ráða 59 þingsætum af 100 í þingdeildinni.
Demókratar þurfa 60 þingsæti til að koma í veg fyrir, að repúblikanar geti stöðvað lagafrumvörp. Búist er við að það gerist þegar niðurstaða fæst fyrir dómstólum um úrslit þingkosninganna í Minnesota.
Specter, sem er hófsamur miðjumaður, segir að frá því hann gekk í Repúblikanaflokkinn árið 1980 hafi flokkurinn færst langt til hægri. Nú eigi hann mun meiri samleið með demókrötum. Hann segist þó ekki munu fylgja flokknum í öllum málum frekar en hann hafi gert sem repúblikani.
57 þingmenn Demókrataflokksins sitja nú í öldungadeildinni. Tveir óháðir þingmenn fylgja flokknum einnig að málum.