Albanir hafa lagt formlega fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Landið fékk í mars aðild að Atlantshafsbandalaginu.
„Þetta er sögulegur atburður en nú gengur land mitt á ný til liðs við fjölskyldu Evrópuþjóða," sagði Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu þegar hann afhenti Mirek Topolanek, forsætisráðherra Tékklands og forsesta Evrópusambandsins, umsóknina.
„Albanía hefur í dag fært sönnur á að þar er virkt lýðræði með markaðshagkerfi," sagði Berisha og bætti við að 96% Albana vildu að landið gengi í ESB.
Ljóst þykir, að aðildarviðræður munu taka nokkur ár. Albanía var áður kommúnistaeinveldi og þar hefur verið landlæg spilling og glæpastarfsemi. Íbúar eru 3,9 milljónir, aðallega múslímar og landið er eitt það fátækasta í Evrópu.
Topolanek sagði, þegar hann tók við umsókninni, að miklar jákvæðar breytingar hefðu orðið í Albaníu en mikið starf væri þó óunnið.