Nukissiorfiit, orkufyrirtæki í eigu grænlensku heimastjórnarinnar, fékk aukareikning upp á 220 milljónir danskra króna (DKR), rúmlega fimm milljarða ÍKR, vegna byggingar virkjunar í Qolortorsuaq og Íslendingar komu m.a. að. Upphafleg tilboð hljóðaði upp á 216 milljónir DKR. Málið verður lagt í gerðardóm.
Það var QORLO samsteypan, sem er í eigu E. Pihl & Sön í Danmörku, YIT í Finnlandi, Landsvirkjunar og Ístaks, sem byggði virkjunina. Verksamningur við Nukissiorfiit um byggingu Qorlortorsuaq-virkjunarinnar ásamt flutningsvirkjum, var undirritaður í lok ársins 2003, samkvæmt frétt Morgunblaðsins.
Grænlenska útvarpið greinir nú frá því, eins og lesa má á heimasíðu þess, að hætta sé á að grænlenska orkufyrirtækið sitji uppi með 220 milljóna DKR reikning í viðbót við tilboðsupphæðina. Svend Hardenberg, forstjóri Nukissiorfiit, segir að málið verði lagt fyrir gerðardóm í Kaupmannahöfn.
Forstjórinn segir að það hafi komið mjög á óvart þegar Pihl & Sön komu með reikninginn. Hann telur að orkufyrirtækið eigi ekki að borga þennan reikning og segir að samningurinn við verktakafyrirtækið hafi hljóðað upp á alverktöku.
Virkjunin er á suðurodda Grænlands, innst í Hrafnsfirði, í svonefndu Vatnahverfi í hinni fornu Eystribyggð. Um er að ræða 7,2 MW vatnsaflsvirkjun, 70 km langar 36 kV háspennulínur, tengivirki og tvær aðveitustöðvar, endurbætur á varaaflstöðvum í bæjunum Narsaq og Qaqortoq (Julianehåb) og rekstur í 5 ár eftir að framkvæmdum verður lokið.