Bandarískir embættismenn segja, að sjúkdómurinn, sem áður var nefndur svínaflensa heiti nú 2009 H1N1 flensan. Er þetta gert til að reyna að hindra, að ríki heims banni innflutning á bandarísku svínakjöti.
Embættismennirnir halda því nú stíft fram, að fólk geti ekki smitast af H1N1 veiru af því að borða svínakjöt heldur sé um að ræða veiru, sem berist á milli manna með sama hætti og aðrar inflúensuveirur.
Svínabændur í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó, sjá fram á gríðarlegt tekjutap vegna flensunnar. Nokkur lönd, þar á meðal Rússland og Kína, hafa þegar stöðvað innflutning á svínakjöti frá þessum ríkjum og búist er við að fleiri fylgi í kjölfarið.
Þrátt fyrir að sjúkdómurinn sé nefndur svínaflensa er ekki vitað til þess, að svín í Bandaríkjunum hafi sýkst af veirunni en hún er einnig skyld hefðbundnum inflúensuveirum.