Parastoo Allahyari, kvenréttindafrömuður í Íran, hefur verið dæmd í eins árs fangelsi fyrir þátt hennar í söfnun undirskrifta þar sem farið var fram á það að lögum um konur í landinu yrði breytt.
Allahyari tók þátt í undirskriftarherferðinni „Ein milljón undirskrifta“ þar sem farið var fram á það að lögum Írans, sem byggja á Sharía-lögum, yrðu dæmd óréttlát í garð kvenna.
Allahyari var fundin sek um að „hafa stefnt þjóðaröryggi í hættu með því að dreifa áróðri gegn íslamska lýðveldinu,“ eins og segir á vef undirskriftarherferðarinnar.
Annar kvenréttindafrömuður, Maryam Malek, mun einnig hafa verið handtekin og hefur hún verið í gæsluvarðhaldi síðustu daga.
Írönsk stjórnvöld hafa sett aukinn þrýsting á lögfræðinga sem berjast fyrir réttindum kvenna og hefur fjöldi þeirra verið handtekinn sl. tvö ár fyrir að kalla eftir breytingum á írönskum lögum eða taka þátt í opinberum mótmælaaðgerðum.