Androulla Vassiliou, sem fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, segir að það sé „mjög líklegt“ að svínaflensuveiran leiði til heimsfaraldurs en það þýði ekki endilega að faraldurinn verði mannskæður.
Vassilou sagði þetta eftir skyndifund heilbrigðisráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins um málið í Lúxemborg í dag. Hún sagði að Evrópuríkin væru vel undir það búin að takast á við svínaflensuveiruna og engin ástæða væri til „ofshræðslu“.
Staðfest hefur verið að svínaflensuveiran hefur breiðst út til sex Evrópulanda. Ekkert smittilfellanna í álfunni er alvarlegt.
Á fundi heilbrigðisráðherranna var tillögu Frakka um bann við farþegaflugi til Mexíkó hafnað.