Bandarískur embættismaður, sem var í fylgdarliði Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, í heimsókn til Mexíkó fyrr í þessum mánuði, er talinn hafa smitast af svínaflensu þar og hafi síðan smitað fjölskyldu sína í Maryland í Bandaríkjunum.
Maðurinn er í starfsliði Steven Chu, orkumálaráðherra, sem fór með Obama til Mexíkó 16. apríl. Eiginkona mannsins, sonur og frændi, virðast einnig hafa smitast, að sögn Roberts Gibbs, talsmanns Hvíta hússins.
Gibb sagði ljóst, að Obama hefði ekki smitast af inflúensuveirunni og þyrfti ekki að gangast undir læknisskoðun.
Starfsmaður Alþjóðabankans, sem býr í Maryland, virðist einnig hafa smitast af veirunni en hann var nýlega í Mexíkó. Enginn þeirra, sem sýkst hefur í Maryland, er þungt haldinn.