Konur í Kenýa hóta nú vikulöngu kynlífsverkfalli, komi stjórn landsins ekki saman og leysi úr þeim ágreiningi sem nú ógnar stjórnarsamstarfinu. Með þessu móti vilja konurnar fá kenýska karlmenn til að þrýsta á sáttarviðleitanir samsteypustjórnarinnar.
Verkfallinu er einnig beint að Lucy Kibaki og Idu Odinga, sem giftar eru Mwai Kibaki forseta og Raila Odinga formanns stjórnarandstöðunnar. Þetta hefur danska ríkisútvarpið eftir dagblaðinu Daily Nation.
„Óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjuleg viðbrögð," segir Patricia Nyaundi, formaður félags kvenna í lögmannastétt.
Stjórnarkreppan hefur staðið í nokkrar vikur en samsteypustjórnin var mynduð fyrir rúmu ári síðan. Fyrir stjórnarmyndunina höfðu um 1200 manns látið lífið síðan forsetakosningunum árið 2007 lauk.
Það sem orsakar ágreining í stjórnarsamstarfinu eru kröfur stjórnarandstæðingsins Raila Odinga, en hann krefst nú meiri valda innan samsteypustjórnarinnar. Hann hefur hótað að leysa stjórnina upp og þvinga fram nýjar kosningar fái hann ekki kröfum sínum framgengt.
Margar konur óttast að ef upp úr samstarfinu slitni, muni ofbeldisalda skella á þjóðfélaginu, líkt og gerðist fyrir síðustu kosningar.