Krefjast útgöngubanns í Malmö

Óeirðir í Rosengård eru tíðar um þessar mundir.
Óeirðir í Rosengård eru tíðar um þessar mundir. AP

Tveir flokkar í bæjarstjórn Malmö í Svíþjóð hafa nú krafist þess að útgöngubanni verði beitt í borginni. Bílabrennur, logandi gámar og dekk sem standa í björtu báli eru orðin nær daglegar uppákomur í hverfinu Rosengård í Malmö. Grjótkast er það sem oft bíður slökkviliði og lögreglu svo á vettvangi. Lögregla segir ástandið skelfilegt. Þetta kemur fram á vef Berlingske Tidende.

„Ef við viljum breyta ástandinu eins fljótt og auðið er, tel ég nauðsynlegt að beita útgöngubanni. Ég tel einnig að banna eigi heimsóknir til þeirra sem lögreglan hefur skilgreint sem óeirðarseggi", segir Anja Sonesson talsmaður flokksins Moderaterna í Malmö.

Hún segir að bannið eigi að beinast gegn ungu fólki undir 18 ára aldri og taka gildi klukkan 21 á kvöldin.

„Þar sem öll önnur úrræði hafa hingað til ekki virkað, er kominn tími til aðgerða sem stuðla að ró og stöðugleika í hverfinu. Þá getur lausnin verið falin í tímabundnu útgöngubanni," segir Sten Andersson sem situr í bæjarráði fyrir jafnaðarmenn.

Svæðið Herragarðurinn í Rosengårdhverfinu þykir einna verst en þangað fer lögreglan aðeins í stórum flokkum.

„Þegar við förum inn á þetta svæði, eru steinum, bensínsprengjum og öðru lauslegu kastað í okkur af nærliggjandi svölum og húsþökum" segir Börje Aronssen yfirmaður innan lögreglunnar. Hann segir nauðsynlegt að lögreglan beri alltaf hjálma og annan hlífðarbúnað í útköllum í þessu hverfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka