Brigitte Bardot, franska leikkonan fyrrverandi, hefur skorað á stjórnvöld í Egyptalandi að hætta við fyrirhugaða slátrun á svínum landsins.
Bardot hefur verið atkvæðamikil í baráttunni fyrir verndun dýra. Hún skrifaði Hosni Mubarak, forseta Egyptalands, bréf þar sem hún mótmælir þeirri ákvörðun stjórnarinnar að láta slátra um 300.000 svínum. Hún segir það til marks um „bleyðimennsku“ að slátra svínunum undir því yfirskini að stjórnin vilji vernda heilsu almennings.
Svínin eru í eigu fátæks fólks í koptísku kirkjunni í Egyptalandi. Fólkið elur svínin á lífrænum úrgangi og matarafgöngum sem það safnar.
Stjórn Egyptalands tilkynnti í fyrradag að svínunum yrði slátrað til að minnka hættuna á að svínaflensa breiddist út í landinu. Margir sérfræðingar gagnrýndu þessa ákvörðun og bentu á að svín bera ekki veiruafbrigðið sem gengur nú á milli manna í Mexíkó og fleiri löndum. Stjórnin sagði þá að ákvörðunin hefði ekki verið tekin vegna svínaflensu heldur vegna þess að svín, sem alin væru á sorpi, stefndu heilsu fólks í hættu. Ætlunin væri að koma upp stórum svínabúum líkt og í Evrópulöndum.