Sameinuðu þjóðirnar hafa krafist þess að Ísraelar hætti að rífa niður hús Palestínumanna sem byggð eru án tilskilinna leyfa í Austur-Jerúsalem. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu Mannréttindanefndar stofnunarinnar er íbúum Austur-Jerúsalem gert nær ómögulegt að byggja löglega í borginni.
Samkvæmt skipulagi er einungis er gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði Palestínumanna á 13% þess byggingalands sem skilgreint er innan Austur-Jerúsalem. Skipulagið gerir hins vegar ráð fyrir byggingum gyðinga á 35% landsins og er það, samkvæmt skýrslunni, brot gegn alþjóðalögum.
Fram kemur í skýrslunni að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafi Ísraelar jafnað 25 byggingar Palestínumenna við jörðu, m.a. byggingar á svæði sem nefnt er E1 en það liggur á milli gyðingahverfisins Ma'aleh Adumim og Austur-Jerúsalem. 46 einstaklingar, þar af 30 börn, bjuggu í húsunum.
Samkvæmt upplýsingum borgaryfirvalda í Jerúsalem eru 3.000 hús Palestínumanna á skrá yfir hús sem til stendur að rífa þar sem þau eru byggð án tilskilinna leyfa.
Þá kemur fram í skýrslunni að 60.000 Palestínumenn búi í húsum sem Ísraelar skilgreini sem ólögleg í Austur-Jerúsalem og að bygging aðskilnaðarmús Ísraela á milli Austur-Jerúsalem og nærliggjandi byggða Palestínumanna hafi leitt til stóraukinna þrengsla í borginni.
Samkvæmt upplýsingum borgaryfirvalda í Jerúsalem fjölgaði umsóknum Palestínumanna um byggingarleyfi í borginni úr 138 árið 2003 í 283 árið 2007. Á milli hundrað og hundrað og fimmtíu byggingarleyfum er árlega úthlutað til Palestínumanna í borginni og hefur fjöldi þeirra ekki aukist.
Fram kemur í skýsrlunni að auk þess sem Ísraelar rífi niður hús Palestínumanna í Austur-Jerúsalem rífi þeir niður hús, sem byggð eru án tilskilinna leyfa, á svæðum sem þeir ráða á Vesturbakkanum.
Á árurum 2000 til 2007 höfnuðu Ísraelar 94% umsókna Palestínumenna um byggingarleyfi á slíkum svæðum sem nefnd eru svæði C samkvæmt Oslóarsamkomulaginu.