Berlusconi: Ég er vinsælastur!

Silvio Berlusconi.
Silvio Berlusconi. Reuters

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur til þessa ekki verið brugðið um hógværð. Hann hefur sjálfur líkt sér við Jesús og Napóleon og trúr sannfæringu sinni lýsti hann því yfir í gær, að hann væri vinsælasti stjórnmálaleiðtogi í heimi.

Berlusconi sagði, að skoðanakannanir sýndu, að yfir 75% þjóðarinnar styddu sig. „Barack Obama, forseti Bandaríkjanna er með 59% stuðning og aðeins Luiz Inácio Lula, forseta Brasilíu er með yfir 60% stuðning - hann er með 64%. Svo ég er í algerum methæðum," sagði Berlusconi við blaðamenn í Napólí í gær þegar hann var viðstaddur tónleika í tilefni af 1. maí.

Það hljóta að hafa verið einhverjir úr 25 prósenta hópnum, sem gerðu hróp að Berlusconi þegar hann kom út úr tónleikahöllinni  og kröfðust þess að hann hefði sig á brott.

Fréttaskýrendur segja, að Berlusconi njóti mikilla vnsælda nú, þrátt fyrir efnahagserfiðleika á Ítalíu. Könnun, sem blaðið La Repubblica birti í mars sýndi að 56% sögðust ánægð með forsætisráðherrann og hafði ánægjan aukist nokkuð, aðallega vegna viðbragða hans við jarðskjálftunum á Ítalíu skömmu áður.

Berlusconi, sem kvartar reglulega yfir þeirri meðferð sem hann fái í ítölskum fjölmiðlum þótt hann eigi eða ráði yfir 90% sjónvarpsstöðva á Ítalíu, sagði hins vegar í gær að 75,1% þjóðarinnar væru ánægð með sig.

„Þetta eru niðurstöður óháðra kannana, sem ekki hafa verið birtar," sagði hann.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert