„Eina gríman sem er í boði á götunni er smokkurinn, og stundum ekki einu sinni hanna, því margir kúnnarnir borga okkur aukalega fyrir að sleppa honum,“ sagði Fatima, fertug vændiskona í Mexíkóborg.
Flensufaraldurinn sem hefur valdið ótta um alla heimsbyggðina virtist ekki hafa mikil áhrif á næturlífið í Sullivan-stræti þar í borg, þar sem fréttamaður AFP átti leið um. Vændiskonur og kúnnar þeirra voru þar án andlitsgríma og tiltölulega kærulaus gagnvart faraldrinum, sem hefur slökkt á mörgum atvinnugreinum Mexíkó.
„Einhver flensa mun ekki fæla okkur frá því að vinna ef að AIDS og aðrir kynsjúkdómar hafa ekki gert það nú þegar. Það er meira að segja til lækning við flensunni, en það er engin lækning við AIDS,“ sagði Fatima, þar sem hún sat inn í bíl og hafði auga með nokkrum yngri vændiskonum.
Vændið hefur samt sem áður orðið fyrir áhrifum af flensufaraldrinum. „Venjulega er ég með átta til tíu viðskiptavinum á kvöldi. Nú eru það bara einn eða tveir,“ sagði Jessica, 23 ára gömul vændiskona og tveggja barna móðir. „Í gær voru þeir sjö, en ég held að það hafi verið vegna þess að það var útborgunardagur,“ sagði hún.
Missti vinnuna í kreppunni og leiddist út í vændi
Jessica er nýlent á götunni. Hún er fórnarlamb kreppunnar, fyrrverandi verksmiðjustarfsmaður í miðju landsins, sem missti vinnuna fyrir tveimur mánuðum síðan og sá engan annan möguleika en að leiðast út í vændi. Hún kveðst ekki vera tilbúin til að láta annað áfall svipta hana lifibrauðinu.
„Við höldum áfram. Enginn hefur sagt okkur að hætta. Fyrst hugsaði ég með mér „hvað ef ég fæ vírusinn?“ en ég hef ekki efni á því að hugsa þannig í þessu starfi. Sem betur fer fékk ég enga veika kúnna í þessari viku,“ sagði hún, haldandi á dagblaði með leiðbeiningum um hvernig megi forðast flensuna.
Aðgerðir stjórnvalda til að halda fólki heima við hafa minnkað vændiskaup í landinu um 40%, samkvæmt upplýsingum frá frjálsum félagasamtökum og í sumum héruðum hafa allt að 70% götuvændiskvenna dregið sig út úr starfinu. Þessi áhrif var hins vegar erfitt að sjá, að sögn fréttamanns AFP, á Sullivan götu þetta kvöld. Hver bíllinn á fætur öðrum keyrði upp að gangstéttinni þar sem vændiskonurnar stóðu í hópum.
„Á götunni gengur fólk ekki með grímur. Ef þú gerðir það væri það jafngildi þess að sýna minna af líkamanum heldur en hinar,“ sagði Jessica. „Í þessari viku sagði bara einn viðskiptavinur mér að vera með grímu. En þegar hann fór þá tók hann í höndina á mér. Hver veit hvernig maður á að haga sér?“