Allt að tvö þúsund bandarískar konur hyggjast leita réttar síns vegna útbrota á brjóstum sem þær segja hafa komið til vegna brjóstahaldara frá bandarísku undirfatakeðjunni Victoria's Secret. Konurnar fara fram á fimm milljón dollara í miskabætur auk kostnaðar vegna læknisþjónustu.
Allar konurnar fengu sömu einkenni, einhvers konar ofnæmisútbrot vegna ertingar, að sögn lögmanns hjá lögmannsstofunni Climaco. Á vefsvæði undirfataframleiðandans segir að málið sé ein stór fjölmiðlabrella, undirföt Victoria's Secret séu örugg og valdi ekki ofnæmi.