Óttast lokauppgjör í Nepal

Námsmenn, sem styðja stjórnarandstöðuna í Nepal, mótmæla í Katmandú.
Námsmenn, sem styðja stjórnarandstöðuna í Nepal, mótmæla í Katmandú. Reuters

Ríkisstjórn maóista í Nepal hefur vikið yfirhershöfðingja landsins frá störfum fyrir að óhlýðnast fyrirmælum hennar. Óttast er að brottvikningin grafi undan friðarsamningi, sem batt enda á borgarastríð í landinu fyrir þremur árum, og leiði til lokauppgjörs milli hersins og ríkisstjórnarinnar.

Deilan snýst um þá kröfu maóista að um 19.000 vopnaðir liðsmenn þeirra, sem börðust í borgarastríðinu, verði teknir í herinn. Æðstu foringjar hersins hafa neitað að verða við kröfunni og segjast ekki vilja að herinn verði skipaður mönnum sem séu pólitískt heilaþvegnir.

Stjórnarandstæðingar mótmæltu brottvikningunni á götum höfuðborgarinnar, Katmandu, í dag. Stuðningsmenn maóista söfnuðust einnig saman á götunum og kröfðust þess að herinn yrði við kröfu maóista.

Rúm 13.000 manns létu lífið í borgarastríðinu sem stóð í rúman áratug til ársins 2006.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert