Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, krafðist þess í dag í blaðaviðtali, að Veronica Lario, eiginkona hans, biðjist opinberlega afsökunar á ýmsum ummælum, sem hún hefur látið falla um hann að undanförnu.
„Veronica verður að biðjast opinberlega afsökunar," hefur blaðið Corriere della Sera eftir honum í dag. „Og ég veit ekki einu sinni hvort það dugar."
Lario sagði í viðtölum um helgina að hún ætlaði að krefjast skilnaðar frá eiginmanni sínum. Í síðustu viku birti hún opið bréf til Berlusconis þar sem hún gagnrýndi hann harðlega fyrir að velja ungar, fallegar og óreyndar konur á framboðslista flokks síns fyrir væntanlegar Evrópuþingskosningar.
„Þetta er í þriðja skipti, sem hún leikur mig grátt í miðri kosningabaráttu. Þetta er of langt gengið," sagði Berlusconi í dag. Þegar hann var spurður hvort hann teldi að hjónaband þeirra muni halda svaraði hann: „Ég held ekki. Ég veit ekki hvort ég vil reyna að halda því saman í þetta skipti."
Að sögn ítalskra fjölmiðla var dropinn sem fyllti mælinn hjá Veronicu að eiginmaður hennar mætti í 18 ára afmæli dóttur viðskiptafélaga síns í Napolí. Berlusconi mætti hins vegar aldrei í 18 ára afmælisveislur barna þeirra þriggja.
Búist er við að skilnaður Berlusconihjónanna muni sjá ítölskum fjölmiðlum fyrir miklu efni á næstunni. Berlusconi er næstríkasti maður Ítalíu og eru eignir hans metnar á 830 milljarða króna.