Atlantshafsbandalagið (NATO) mun hefja heræfingar í Georgíu í dag, degi eftir að stjórnvöld í landinu komu í veg fyrir að herinn gæti gert uppreisn. Hermenn frá 18 löndum munu taka þátt í æfingunum sem fara fram á herstöð skammt frá Tblisi, höfuðborg Georgíu.
Rússnesk stjórnvöld mótmæla heræfingunum og segja að þær séu ögrun.
Þær hefjast aðeins níu mánuðum eftir að Rússar og Georgíumenn háðu skammvinnt stríð. Þá fara æfingarnar fram á stöðum sem eru skammt frá svæðum þar sem rússneskir hermenn eru staðsettir.
Rúmlega 1.000 hermenn munu taka þátt í heræfingunum, sem munu standa yfir í þrjár vikur.
Yfirvöld í Georgíu líta á æfingarnar sem merki um að Vesturveldin hafi ekki gleymt þeim. Þegar er búið að lofa Georgíumönnum að þeir muni fá að gerast aðilar að NATO.
Rússar eru afar ósáttir. Þeim var boðið að senda eftirlitsmenn á svæðið sem þeir höfnuðu.