Tré varð manni að bana

Karlmaður lét lífið þegar tré féll á bíl hans hjá Fælledparken í Kaupmannahöfn fyrr í dag. Frá þessu er greint á vef danska dagblaðsins Berlingske Tidende. 

Að sögn John Hansen, lögreglustjóra hjá dönsku lögreglunni, fengust þær upplýsingar að enn væri ekki vitað hvað olli því að tréð féll. Starfsmenn Kaupmannahafnarbæjar hófu umsvifalaust að rannsaka hvort rekja mætti slysið til þess að sveppur hefði verið í rótum trésins. 

Alls féllu tvö tré um koll, en annað þeirra lenti á bíl sem ekið var eftir Øster Allé. Lögreglan fól danska heimavarnarliðinu að loka garðinn af þar sem óttast er að fleiri tré geti oltið. 

Mörg vitni sáu þegar tréð lenti á bílnum með fyrrgreindum afleiðingum og hefur fólkinu verið boðin áfallahjálp. 

Sjónarvottar segja að bifreiðin sem varð undir trénu hafi lagst algjörlega saman og beita hafi þurft klippum til að ná líkinu úr bílnum. Tré var sagað í búta og liggur núna á víð og dreif um götuna. 

Haft er eftir starfsmanni í Fælledparken að lengi hafið verið um það rætt að fella ætti stærstu trén í garðinum, en þrátt fyrir ýmis smá óhöpp hafi menn ekki þorað að fella eitthvert magn af trjám af ótta við mótmæli almennings. 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert