Barack Obama Bandaríkjaforseti ræddi í kvöld við forseta Afganistans og Pakistans og sagði eftir viðræðurnar að þeir hefðu lofað nánu samstarfi í baráttunni gegn öfgasamtökum sem ógnuðu öllum löndunum þremur.
Fundurinn var haldinn í skugga loftárása Bandaríkjahers sem kostuðu tugi óbreyttra borgara lífið í vesturhluta Afganistans. Obama kvaðst harma blóðsúthellingarnar og sagði að Bandaríkjamenn myndu gera allt sem á valdi þeirra stæði til að fyrirbyggja mannfall meðal óbreyttra borgara.
Leiðtogarnir ræddu einnig þróunarsamvinnu milli ríkjanna þriggja. Fyrr í dag undirrituðu Asif Ali Zardari, forseti Pakistans, og Hamid Karzai, forseti Afganistans, viðskiptasamning sem á að greiða fyrir erlendum fjárfestingum í löndunum tveimur.