Tugir létust í Afganistan

FABRIZIO BENSCH

Talið er að a.m.k þrjátíu manns liggi í valnum eftir loftárás sem bandaríski flugherinn stýrði í héraðinu Farah í vesturhluta Afganistan í fyrrakvöld. Talsmaður Alþjóðarauða krossins staðfesti í samtali við AFP að konur og börn hefðu verið meðal þeirra sem létust. 

Hamid Karzai, forseti Afganistans, hefur fyrirskipað rannsókn á atvikinu. Segist hann munu taka málið upp við Barack Obama, Bandaríkjaforseta, en þeir eiga fund í Washington í dag. Yfirmenn bandaríska hersins hafa heitið því að rannsaka málið. 

Yfirvöld í Farah segja tugi líka hafa verið flutta til héraðshöfuðborgarinnar, flestir hinna látnu séu konur og börn. Stjórnarher Afganistan lagði til atlögu við Talíbana í Farah eftir að þeir myrtu þrjá menn sem þeir sögðu vinna með stjórnvöldum í Kabúl. Bandaríska flugsveitin átti að liðsinna stjórnarhernum sem taldi Talíbana í felum í héraðinu. 

Haft er eftir Rohul Amin, héraðsstjóra að Talíbanar, hafi haldið til í húsum óbreyttra borgara og þannig beitt saklausu fólki fyrir sér. Segir hann ómögulegt að fá nákvæma tölu yfir látna í árásinni þar sem landsvæðið sé undir stjórn Talíbana. Balqis Roshan, sem situr í héraðsráði Farah, segist hafa þær fregnir að allt að 150 óbreyttir borgara hafi látist í árásinni.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert