Bresku líknarsamökin Christie hafa nú safnað 100.000 undirskriftum þar sem þess er krafist að samtökunum verði bætt það fjárhagstjón sem þau urðu fyrir vegna hruns Kaupthing Singer and Friedlander (KSF). Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Undirskriftirnar verða afhentar á skrifstofu breska forsætisráðherrans við owningstæti 10 síðar í dag en gert er ráð fyrir a.m.k. fimmtíu manns, á vegum samtakanna verði við afhendinguna. Munu sumir þeirra bera myndir af krabbameinssjúkum ástvinum sínum.
Samtökin töpuðu 6,5 milljónum sterlingspunda er íslenskra ríkið tók yfir Kaupþing og hefur breski tryggingasjóðurinn The Financial Services Compensation Scheme þegar hafnað kröfu þeirra um að þeim verði bætt tjónið. „Fólkið í Manchester hefur talað,"segir Carol Park, ein þeirra sem stóðu að undirskriftasöfnuninni er hópurinn kom saman í Manchester í gær.
„Það hefur snert okkur hversu mikinn stuðning við höfum fengið frá almenningi,” segir Lord Keith Bradley, formaður samtakanna. „Söfnunin hefur þjappað fólki saman og veitt því styrk. Þá mun fjöldinn vafalaust vekja athygli áhrifamestu manna innan stjórnsýslunnar."
Nefnd á vegum breska fjármálaráðuneytisins mælti með því í skýrslu sem birt var 4. apríl að mannúðarsamtökum yrði bættur sá fjárhagsskaði sem þau hafi orðið fyrir vegna hruns íslensku bankanna.
Christie samtökin safna fé til að greiða fyrir læknismeðferðir og rannsóknir við sjúkrahús í Manchester.