Ekki mælt með „svínaflensupartíum"

Bandarísk heilbrigðisyfirvöld segja það ekki góða hugmynd, að reyna að smitast vísvitandi af inflúensunni, sem greinst hefur í í mörgum löndum að undanförnu og mynda þannig vörn gegn svæsnari flensu, sem hugsanlega gæti orðið að faraldri síðar á árinu.

„Það væru mikil mistök að halda „svínaflensupartí," sagði Richard Besser, yfirmaður bandarísku sóttvarnastofnunar. „Þetta er ný sýking og við erum stöðugt að afla meiri upplýsinga um hana. En við vitum ekki enn hvaða áhrif sýking hefur á mismunandi einstaklinga. Það væri mjög óábyrgt að setja einstaklinga og börn í hættu og stofnunin getur ekki mælt með slíku."

Hugmyndin um svínaflensupartí hefur verið til umræðu á spjallrásum á netinu. Er hún rakin til svonefndra hlaupabólupartía þar sem börn, sem veikst hafa af hlaupabólu, eru látin smita heilbrigð börn en foreldar, sem taka þátt í slíku eru flestir andvígir bólusetningum á börnum eða vonast til að þau myndi með þessum hætti mótefni gegn alvarlegri sjúkdómum. 

Inflúensan, sem nefnd hefur verið svínaflensa, hefur í flestum tilfellum verið væg. Vísindamenn óttast hins vegar að veiran, sem henni veldur, geti stökkbreyst og hugsanlega myndað ónæmi gegn lyfjum og valdið alvarlegri faraldri síðar á þessu ári. 

Alls hafa verið staðfest 2099 tilfelli af inflúensunni í 23 löndum. 42 hafa látist af völdum sjúkdómsins í Mexíkó og 2 í Bandaríkjunum.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert