Barack Obama Bandaríkjaforseti kynnti í dag fjárhagsáætlun næsta árs, sem nemur 3,6 billjónum dala. Bandarísk yfirvöld standa frammi fyrir gríðarlegum fjárlagahalla. Obama hefur heitið því að draga úr eyðslunni og kynnti 121 niðurskurðartillögu sem á að spara um 17 milljarða dala.
Þetta kemur fram í 1.300 blaðsíðna skýrslu sem Hvíta húsið kynnti í dag. Repúblikanar segja að niðurskurðurinn, sem nemur tæpu 0,5% af heildaráætluninni, sé smávægilegur í samanburði fyrir stærð hallans. Sérstaklega í ljósi núverandi efnahagsaðstæðna.
Obama segir að eins og staðan sé í dag sé verið að verja stórfé á duglítinn og árangurslausan hátt. Hann segir að sumt sem hann hafi séð hafi í raun verið ótrúlegt.
„Þessi sparnaður, mikill og lítill, hefur áhrif,“ sagði Obama um áætlunina. Um helmingur niðurskurðarins beinist að varnarmálum, en um hálf billjón dala rennur til þeirra.
„Niðurskurðartillögurnar [...] munu spara skattgreiðendum 17 milljarða dala á næsta ári. Það er mikið fé, jafnvel á mælikvarða Washington.“