Norskir stjórnmálamenn virðast almennt telja, að það muni ekki hafa merkjanleg áhrif á stjórnmálaumræðuna í Noregi í sumar og haust þótt Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Kosið verður til norska Stórþingsins í haust en ekki er gert ráð fyrir að hugsanleg ESB-aðild verði fyrirferðarmikil í kosningabaráttunni.
Fram kemur í norska blaðinu Dagsavisen í dag, að talsmenn þeirra flokka og hreyfinga, sem helst eru fylgjandi því að Noregur gangi í Evrópusambandið reikni ekki með því að ESB-umræða verði fyrirferðarmikil í kosningabaráttunni.
Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra, lýsti sömu skoðun í umræðum í norska þinginu í gær. Þá sagðist hann einnig telja, að EES-samningurinn muni halda áfram þótt Íslendingar gangi í Evrópusambandið.
Blaðið hefur eftir Anders Todal Jensen, prófessor í stjórnmálafræði, að Norðmenn hafi lítinn áhuga á nýrri atkvæðagreiðslu um ESB-aðild en síðast var aðild hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu 1994. Norðmönnum hafi einnig gengið ágætlega utan Evrópusambandsins.