Talsmenn Páfagarðs fullyrða að Benedikt XVI páfi hafi ekki ætlað sér að vanvirða íslam þegar hann gekk á skóm inn í Al-Hussein moskuna í Amman í Jórdaníu í morgun. Páfi hafi einfaldlega ekki verið beðinn um að taka af sér skóna.
„Páfi var reiðubúinn að taka af sér skóna en fylgdarlið hans leiddi hann rakleiðis á sérstakan dregil og nefndi ekki að hann ætti að taka af sér skóna,“ segir Federico Lombardi, talsmaður Vatíkansins.
Benedikt XVI páfi er nú í rúmlega viku vísitasíu í ríkjum Miðausturlanda. Hann hefur sagt ferð sína vera pílagrímaferð friðar. Þetta er fyrsta heimsókn hans á þetta svæði frá því hann tók við embætti páfa árið 2005. Næsti áfangastaður hans er Ísrael og síðan mun hann sækja Vesturbakkann heim.
Minnt er á að þegar Benedikt XVI páfi heimsótti Bláu moskuna í Istanbul í Tyrklandi árið 2006, tók hann af sér skóna. Þá er einnig rifjað upp að forveri Benedikts XVI, Jóhannes Páll páfi II, tók af sér skóna áður en hann gekk inn í moskuna í Damascus í heimsókn sinni árið 2000.
Benedikt XVI páfi ítrekaði virðingu sína fyrir íslam við upphaf vísitasíu sinnar til ríkja Miðausturlanda í gær. Páfi sagði trúfrelsi vera grundvallar mannréttindi og sagðist vonast til þess að kaþólska kirkjan geti komið að friðarviðræðum í Miðausturlöndum.