Gæti klárað næstu 100 daga á 72 dögum

Barack Obama í kvöldverðinum í gærkvöldi.
Barack Obama í kvöldverðinum í gærkvöldi. Reuters

Ljóst þykir eftir gærkvöldi, að þurfi Barack Obama, Bandaríkjaforseti, að leita sér að nýju starfi, gæti hann vel reynt fyrir sér sem uppistandari. Forsetinn reytti af sér brandara þegar hann flutti ræðu á árshátíð blaðamannafélags Hvíta hússins í gærkvöldi.

Obama skaut í allar áttir í ræðunni, þar á meðal á sjálfan sig: „Ég tel, að næstu 100 dagar mínir í embætti muni ganga svo vel, að ég muni geta lokið þeim á 72 dögum. Og 73. daginn mun ég hvílast," sagði hann m.a. 

Obama bætti við á næstu 100 embættisdögum sínum muni hann læra, að fylgjast ekki of grannt með textavélinni „og Joe Biden (varaforseti) mun læra að fylgjast með textavélinni," en Biden er þekktur fyrir að lenda stundum í vandræðum vegna óyfirvegaðra ummæla sinna. Obama er hins vegar stundum gagnrýndur fyrir að reiða sig á textavélar.

Obama sagði, að dætur hans, Malia og Sasha, hefðu ekki fengið að koma í kvöldverðinn því þær væru í útivistarbanni. „Það er ekki hægt að fara í forsetaflugvélinni í útsýnisflug yfir Manhattan - mér er sama þótt þið séuð mínir krakkar," sagði hann og vísaði til uppnáms sem varð þegar embættisflugvél forsetans var flogið lágt yfir New York nýlega.

Forsetinn sagðist í upphafi ræðunnar neyðast til að flytja hana vegna þess að þetta væri enn eitt vandamálið sem hann hefði erft frá George W. Bush, forvera sínum. Bush slapp að mestu við brandara en Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti, var ekki eins heppinn.  

„Dick Cheney átti að vera hérna, en hann á of annríkt við að skrifa æviminningar sínar, sem eiga að heita: Hvernig á að skjóta vini og yfirheyra fólk."

Núverandi varaforseti varð einnig skotspónn forsetans þótt flestir héldi lengi vel að Obama væri að tala um hundinn Bo, sem nýlega settist að í Hvíta húsinu: „Hann er hlýr, tryggur, ákafur, það verður að passa vel upp á hann því hann hleypur alltaf öðru hvoru útundan sér og lendir í vandræðum. En nú er ég búinn að tala nógu lengi um Joe Biden." 

Mikill fjöldi skemmtikrafta var viðstaddur kvöldverðinn, þar á meðal leikararnir Demi Moore, Ashton Kutcher, Tom Cruise og Katie Holmes, Glenn Close og Eva Longoria, stjörnukokkurinn  Gordon Ramsay og leikstjórinn Steven Spielberg.

Michelle Obama spennti vöðvana meðan maður hennar flutti ræðuna.
Michelle Obama spennti vöðvana meðan maður hennar flutti ræðuna. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka