Breskur hermaður sem slasaðist alvarlega í eldflaugaárás í Íraksstríðinu fyrir rúmu ári, lauk Lundúnamaraþoninu í dag, tveimur vikum eftir að ræst var í hlaupið. Hann gekk vegalengdina á hækjum og safnaði rúmlega 119 milljónum króna til styrktar hermönnum, meðan á göngunni stóð.
Phil Packer, 36 ára major í breska hernum var sagt að hann gæti aldrei gengið á ný þegar hann vaknaði á hersjúkrahúsi í Írak. Packer slasaðist alvarlega þegar hann varð fyrir eldflaugaárás í Basra í suðurhluta Íraks í febrúar 2008.
Packer neitaði að gefast upp og einsetti sér að taka þátt í Lundúnamaraþoninu, sem hann og gerði. Ræst var í maraþonið sunnudaginn 26. apríl og var Packer þá meðal þúsunda sem þátt tóku.
Það tók hann hins vegar ögn lengri tíma að ljúka vegalengdinni en aðra þátttakendur. Hann kom í mark í dag, 13 sólarhringum eftir að hann lagði af stað og hafði þá lagt maraþonvegalengd að baki, 42,195 kílómetra eða 26 mílur og 385 yarda. Packer gekk að jafnaði 2 mílur á dag eða rúma 3 kílómetra og studdist við hækjur í hverju skrefi.
„Skrefin urðu alls 52.400 og ég fékk fylgd í hverju einast skrefi, alla leið. Það gengu með mér leigubílstjórar, lögregluþjónar, veitingastúlkur. Ég fékk hvatningu og sömuleiðis dýrmætt tækifæri til að ræða við fjölda fólks. Umræðurnar um Íraksstríðið og hernað voru opinskáar. Það var gefandi,“ sagði Packer þegar hann kom í mark.
Hundruð manna fögnuðu honum við marklínuna. Packer gekk til styrktar hermönnum og hafði sett sér að safna milljón pundum. Upphæðin sem Packer safnaði í göngunni var 630 þúsund pund eða rúmar 119 milljónir króna sem renna í líknarsjóð hermanna.