Stjórnarherinn í Pakistan hefur enn hert sókn sína gegn talibönum í Swat Buner og Lægra Dir héruðum í Pakistan. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Samkvæmt upplýsingum hersins voru 200 uppreisnarmenn felldir í aðgerðum hersins um helgina en að minnsta kosti 360 þúsund manns hafa flúið heimili sín vegna átakanna undanfarna daga.
Harðir bardagar hafa staðið á milli stjórnarhers landsins og talibana í Buner og Lægra Dir héruðum að undanförnu en stjórnarherinn lét til skarar skríða gegn talibönum þar er þeir gerðu sig líklega til að leggja undir sig nágrannahéruð Swat-dalsins.
Talibanar hafa ráðið lögum og lofum í Swat-dalnum að undanförnu en fyrr á þessu ári gerðu yfirvöld í Pakistan friðarsamning við þá sem m.a. felur í sér að íslömsk sharia-lög gildi á svæðinu.
Talibanar höfðu heitið því að leggja niður vopn á svæðinu en nú segja talsmenn þeirra að það hafi ekki verið gert þar sem pakistönsk yfirvöld hafi ekki að fullu staðið við sinn hluta samningsins.
Þá höfðu þeir orðið sífellt sýnilegri í Buner héraði og borið þar vopn á götum úti, áður en sókn stjórnarhersins hófst.