Lögreglan í Ósló staðfesti í kvöld, að karlmaður á sjötugsaldri hefði skotið tvær konur til bana með haglabyssu á Neseyju skammt frá Ósló nú síðdegis. Maðurinn réði sér síðan bana.
Lögreglan sagði á blaðamannafundi nú laust fyrir klukkan 18 að íslenskum tíma, að tilkynning hefði borist um það klukkan 16, að karlmaður væri á ferð á eyjunni vopnaður haglabyssu. Þegar lögreglan kom á svæðið fann hún tvær konur, sem höfðu verið skotnar til bana og lágu á jörðunni framan við hús. Árásarmaðurinn fannst skömmu síðar látinn inni í húsinu.
Lögreglan segir, að karlmaðurinn hafi verið rúmlega sextugur að aldri og önnur konan var tæplega sextug. Þau voru tengd. Ekki hafa verið borin kennsl á hina konuna.