Yfir fimmtíu látnir vegna H1N1

CHINA DAILY

Staðfest tilfelli inflúensu A (H1N1) voru alls 5.132 í morgun í 30 ríkjum í heiminum samkvæmt upplýsingum Sóttvarnarstofnunar Evrópusambandsins. Þar á meðal eru tvö staðfest tilfelli í Noregi, tvö í Svíþjóð og eitt í Danmörku. Staðfest dauðsföll vegna flensunnar eru 53 talsins, flest í Mexíkó eða 48, þrjú dauðsföll eru staðfest í Bandaríkjunum, eitt í Kanada og eitt í Kosta Ríka.

Alþjóðaheilbrigðisvöld halda óbreyttu viðbúnaðarstigi sínu enn um sinn og viðbúnaði hérlendis er haldið áfram á hættustigi, samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra . 

Viðbúnaðarstigi ekki breytt hérlendis

Engin tilfelli hafa verið greind hér á landi enn sem komið er og enginn lagður inn á Landspítalann með alvarleg inflúensulík einkenni. Jafnvel þó einstaklingar greinist hér á landi með inflúensu A (H1N1) mun það að öðru óbreyttu ekki breyta viðbúnaðarstigi hér á landi. Ef hins vegar kemur í ljós að sjúkdómurinn af völdum inflúensunnar fer að verða alvarlegri erlendis eða hérlendis kallar það á frekari viðbrögð. 

Þó svo að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsi yfir 6. stigi (hæsta stigi) verða viðbrögð hér á landi ekki aukin frá því sem nú er á meðan sýkingin er væg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert