Talsmaður Páfagarðs staðhæfði í dag að Benedikt páfi XVI hefði aldrei verið í Hitlersæskunni en skilja má fyrri yfirlýsingar páfa sjálfs sem staðfestingu á því að hann hafi verið í samtökunum. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Páfi er nú í heimsókn í Ísrael og hafa tengsl hans við nasista ítrekað verið rifjð upp í umfjöllunum um heimsóknina.„Páfi var aldrei í Hitlersæskunni, aldrei, aldrei, aldrei,” sagði talsmaðurinn Federico Lombardi. Þá sagði hann að páfi hafa sinnt herskyldu í flugvarnarherdeild á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar.
Í samtalsbókinni „Salt jarðarinnar” frá árinu 1996 segir páfi hins vegar að hann hafi sjálfkrafa verið skráður í Hitlers-æskuna er hann var ungur maður í Þýskalandi.
„Fyrst vorum við það ekki en síðan var aðild að Hitlersæskunni gerð að skyldu árið 1941 og þá var okkur bróður mínum skylt að gerast meðlimir,” segir hann. „Ég var enn of ungur en þegar ég varð guðfræðistúdent var ég skráður í Hitlersæskuna. Ég hætti um leið og ég lauk námi.”