Samdráttar gætir nú í framboði á kókaíni í heiminum. Breska lögregludeildin Serious Organised Crime Agency (soca) segjr að rekja megi þetta til árangursríkra baráttuaðferða gegn smyglhringjum á undanförnum árum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
SOCA segir minna framboð hafa leitt til þess að heildsöluverð á efninu hafi hækkað umtalsvert. Smásöluverð hafi hins vegar haldist stöðugt.
„Það er merkjanlegur samdráttur í framboði á kókaíni bæði í Evrópu og í Bretlandi. Við skjáum nú hágæðakókaín kosta um 45.000 pund kílóið í heildsölu í Bretlandi. Það er mun hærra en það sem verið hefur og gefur til kynna þann þrýsting sem verið hefur á innflutningi," segir Trevor Pearce, talsmaður Soca.
„Við sjáum heilsöluverð hækka um alla Evrópu, á Spáni og í Belgíu. Við teljum að rekja megi það til þeirrar aðferðafræði sem við höfum notað í Suður-Ameríku, Karabíska hafinu, beggja vegna Atlantshafs og í samvinnu við evrópska samstarfsaðila okkar,” segir hann.
Samkvæmt heimildum BBC hefur dregið mjög úr gæðum þess efnis sem lögregla gerir upptækt í Bretlandi að undanförnu og má hugsanlega rekja stöðugleika í götuverði til þess að efnið sé nú blaðndaðra en áður. Á meðal þeirra efna sem greind hafa verið í kókaíni, sem gert hefur verið upptækt, er krabbameinsvaldandi klórvetnisblanda, kakkalakkaeyðir og efni sem ætlað er að drepa orma í gæludýrum.