Um þrjátíu kaffihús sem selja kannabisefni í Limburg héraði í Hollandi hafa ákveðið að breyta þeim í einkaklúbba um næstu áramót. Er þetta gert til þess að losna við ásókn ferðamanna sem sækjast eftir því að kaupa fíkniefni.
Gerd Leers, borgarstjóri Maastricht, sagði á blaðamannafundi í dag að öllum þessum kaffihúsum verði breytt í einkaklúbba þar sem enginn fær inngöngu nema hann sé meðlimur. Munu kaffihúsin gefa út skírteini fyrir meðlimi en umsóknarferli fyrir slíkt skírteini tekur nokkra daga.
Limburg hérað er við landamæri Belgíu og Þýskalands og með þessu vonast eigendur kaffihúsanna til þess að losna við áreiti ferðamanna sem koma þangað í þeim eina tilgangi að neyta fíkniefna. Leers segir að stjórnvöld hafi í mörg ár barist við áreiti Belga, Frakka og Þjóðverja sem sækja á þessi kaffihús. Talið er að fjórar milljónir útlendinga komi til Limburg árlega til þess að kaupa kannabisefni.
Frá og með áramótum verður ekki heimilt að kaupa meira en 3 grömm af kannabis í kaffihúsunum á dag. Það er sá skammtur sem hver meðlimur fær að kaupa á degi hverjum. Samkvæmt hollenskum lögum er heimilt að selja eða dreifa allt að fimm grömmum af kannabis á dag.