Brown: Allar kostnaðarkröfur skoðaðar

Breska þinghúsið
Breska þinghúsið Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands og formaður breska Verkamannaflokksins, segir að farið verði yfir allar kröfur þingmanna um kostnaðargreiðslur á undanförnum fjórum árum. Í gær lýsti David Cameron, formaður Íhaldsflokksins því yfir að setta yrðu nýjar reglur fyrir þingmenn flokksins. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

 „Það er ekki nóg að einn eða tveir þingmenn séu með yfirlýsingar hér og þar,” sagði hann. Þá sagðist hann telja að rannsókn á kröfum allra þingmanna muni leiða í ljós að flestir þingmenn hafi staðið undir trausti almennings. Brown sagði einnig líklegt að nokkrir þingmenn verði látnir endurgreiða kostnað. „Það er róttækt en nauðsynlegt,” sagði hann.

Cameron sagði í gær að þeir sem farið hefðu yfir strikið í slíkum málum yrðu krafnir um endurgreiðslur og að verði þeir ekki við því muni hann reka þá úr þingflokknum.  

Greint var frá því í Bretlandi í gær að ráðherrann Hazel Blears þurfi að greiða 13.332 sterlingspund í eignaskatt vegna verðmætaaukningar vinnuíbúðar hennar.

Í flestum tilfellum snúast greiðslurnar um heimilishald þingmanna í London en eigi þeir lögheimili annars staðar eiga þeir rétt á kostnaðargreiðslum vegna slíks húsnæðis. Upplýsingum um kostnaðargreiðslurnar var nýlega lekið til dagblaðsins Daily Telegraph. Þar kemur m.a. fram að þingmenn hafi m.a. farið fram á og fengið endurgreiðslur vegna kaupa á gæludýrafóðri, ljósaperum, byggingarefni, garðsláttuvél og vegna sundlaugabygginga við heimili sín.

Flestar upplýsingarnar sem birtar hafa verið tengjast þingmönnum Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins. Þó hefur verið greint frá því að Sir Menzies Campbell, þingmaður frjálslyndra demókrata, hafi  m.a. krafið ríkið um 10.000 pund vegna reiknings innanhúshönnuðar sem endurhannaði vinnuíbúð hans.

Brown  baðst afsökunar á málinu á mánudag en í upplýsingunum kemur m.a. fram að hann hafi farið fram á kostnaðargreiðslur vegna viðskipta við fyrirtæki bróður síns. Hans fyrstu viðbrögð við gagnrýninni voru hins vegar þau að krefjast rannsóknar á því hvernig blaðið hefði komist yfir upplýsingarnar, sem ekki eiga að vera aðgengilegar almenningi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert