Hætta er á að mikilvægustu kóralrif heims gætu horfið innan nokkurra áratuga verði ekkert að gert. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu World Wildlife Fund (WWF) sem fjallað er um á vef breska ríkisútvarpsins.
WWF telja að a.m.k 40% af Kóralþríhyrningnum sé þegar glataður vegna neikvæðra áhrifa af hækkun sjávarhitans. Svæðið, sem afmarkast af Indónesíu og fimm öðrum Suðaustur-Asíu löndum, er talið búa yfir 75% af öllum kóralrifum heims. Kóralrif á grunnsævi eru stundum kölluð regnskógar sjávarins vegna gífurlegrar fjölbreytni dýralífs sem þar leynist.
Til þess að koma í veg fyrir frekari eyðingu kóralrifanna þyrfti að draga allverulega saman í losun gróðurhúsalofttegunda og bæta fiskveiðiaðferðir. Kóralþríhyrningurinn þekur aðeins 1% jarðarinnar, en telur samt um þriðjung allra kóralrifa í heiminum.
Að sögn Ove Hoegh-Gudberg, prófessors, myndi það hafa geigvænleg áhrif á lífríkið ef kóralrifin hyrfu. Reynslan sýni að fiskur hafi horfið af stórum hagsvæðum víða um heim sem beina afleiðingu af því að kóralrif hafa eyðilagst og horfið.