Unglingsstúlka, sem bað þrjá pilta um að myrða móður hsína, var í dag dæmd í fimm ára fangelsi í undirrétti í Helsinki í Finnlandi. Pilturinn sem tók að sér ódæðisverkið var dæmdur í sjö ára fangelsi.
Stúlkan var 16 ára þegar hún lofaði 19 ára pilti 30 þúsund evrum, eða rúmlega 5 milljónum króna, gegn því að hann myrti móður hennar. Stúlkan lýsti móður sinni fyrir honum og lét hann fá lykil að bústað móðurinnar.
Í janúar í fyrra hélt svo pilturinn með tveimur félögum sínum, sem hann hafði lokkað með peningum, að heimili móður stúlkunnar. Tveir unglinganna komust inn til móðurinnar sem taldi að dóttirin hefði hringt dyrabjöllunni. Hún hafði haft áhyggjur af fjarveru hennar. Þriðji pilturinn stóð vörð í stigaganginum.
Piltarnir voru vopnaðir lásboga, hníf og sprautu með nikótíni. Nota átti öll vopnin. Svo virðist sem fát hafi komið á piltana þegar móðirin missti ekki meðvitund þótt hún hefði verið skotin með lásboganum. Hún gat hlaupið út á svalir og kallað á hjálp. Piltarnir voru handteknir skömmu eftir árásina.