Handtökur vegna gleðigöngu í Moskvu

Lögregla handtekur Nikolai Alexejev, forsprakka göngunnar.
Lögregla handtekur Nikolai Alexejev, forsprakka göngunnar. Reuters

Lögregla í Moskvu handtók um það bil tvo tugi manna, sem fóru í gleðigöngu samkynhneigðra í borginni. Borgaryfirvöld höfðu áður bannað samkomuna og sögðu að lögregla myndi bregðast hart við því ef bannið yrði hunsað.

Evróvisjón söngvakeppnin verður haldin í Moskvu í kvöld. Hafa fyrirhugaðar aðgerðir samkynhneigðra vakið talsverða athygli meðal keppenda þar og létu sumir þeirra að því liggja að þeir muni bregðast við með einhverjum hætti ef lögregla stöðvaði gleðigönguna í borginni. 

Um 15 mótmælendur hrópuðu slagorð þar sem krafist var jafnra réttinda fyrir alla og sagt að hatur á samkynhneigðum væri skömm Rússlands. Mennirnir voru allir handteknir og lögregla handtók síðar um 5 manns til viðbótar þegar þeir reyndu að ræða við blaðamenn.  

Meðal hinna handteknu voru Nikolai Alexejev, sem stýrir heimasíðunni   GayRussia.ru og skipulagði gleðigönguna. Þá var maður í brúðarkjól handtekinn og Bandaríkjamaður, sem barist hefur fyrir réttindum samkynhneigðra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka