Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, kann að vera reiðubúinn til að taka þátt í friðarferli, sem leiði til sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Þetta segir Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels við ísraelska sjónvarpið í kvöld.
Barak sagði, að hugsanlegt væri að samkomulag náist innan þriggja ára.
Netanyahu mun brátt eiga fund með Barack Obama, Bandaríkjaforseta, í Hvíta húsinu. Hann fór einnig til Egyptalands og Jórdaníu í síðustu viku og ræddi við leiðtoga þar um friðarferlið.
Bandaríkin styðja tveggja ríkja lausn í deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna. Það gera einnig Egyptar og Jórdaníumenn, einu arabaríkin sem viðurkenna Ísraelsríki.