Tamíl-Tígrar gefast upp

Mynd sem stjórnarherinn á Sri Lanka sendi frá sér og …
Mynd sem stjórnarherinn á Sri Lanka sendi frá sér og segir vera af eyðilögum báti Tígranna. Reuters

Uppreisnarmenn Tamíl-Tígranna á Srí Lanka hafa hætt bardögum við stjórnarher landsins í norðausturhluta landsins og hafa ákveðið að „þagga niður í byssum sínum," segir á heimasíðunni Tamilnet sem er hliðholl uppreisnarmönnum.

„Þessum bardaga er lokið," segir í yfirlýsingu á síðunni frá Selvarasa Pathmanathan, einum af talsmönnum Tamíl-Tígra.  „Við eigum aðeins einn kost eftir - að fjarlægja afsökum óvinarins fyrir því að drepa fólk okkar. Við höfum ákveðið að þagga niður í byssum okkar. Við getum aðeins harmað þau mannslíf, sem hafa tapast og að við gátum ekki haldið lengur út." 

Tamíl-tígrar  réðu áður norðausturhluta Srí Lanka og voru taldir einhver harðsnúnasta skæruliðahreyfing  í heimi. Tígrarnir hafa í 25 ár barist fyrir sjálfstæði þjóðarbrots Tamíla á Srí Lanka.

Friðarsamkomulag var gert árið 2002 milli Tígranna og stjórnvalda á Srí Lanka. Tóku Norðurlandaþjóðirnar að sér að hafa eftirlit með friðarsamkomulaginu og starfaði Norræna vopnahléseftirlitssveitin í landinu frá 2002 til 2008. Stjórnvöld á Srí Lanka sögðu upp friðarsamningnum einhliða og juku hernaðaríhlutun sína á Vanni-svæðinu í norðurhluta landsins, sem hefur verið áhrifasvæði Tamil-Tígra.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur starfað að fiskimálum á Srí Lanka síðan 2005, en verkefnum stofnunarinnar lýkur þar á árinu, samkvæmt fyrri ákvörðun, og verði sendiráði Íslands jafnframt lokað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert