Eldur braust út í Berlaymont, höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel, laust fyrir hádegið í dag. Reyk lagði frá húsinu, sem var rýmt en þar vinna að jafnaði um 2700 manns. Ekki er vitað til að neinn hafi sakað.
Mikill viðbúnaður lögreglu og slökkviliðs var vegna eldsins og var stóru svæði umhverfis bygginguna lokað fyrir umferð. Í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir, að slökkvilið sé enn að störfum í byggingunni. Ekki er vitað um eldsupptökin.
Berlaymont byggingin er 16 hæðir og samstals 240 þúsund fermetrar. Þar eru m.a. skrifstofur José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB og þeirra 26 sem sitja í framkvæmdastjórn sambandsins.