Fracisco Franco, sem var lengi einræðisherra á Spáni á síðustu öld, átti það sameiginlegt með Adolf Hitler að vera aðeins með eitt eista. Þetta er upplýst í nýrri bók, sem sagnfræðingurinn José Maria Zavala hefur skrifað og hefur vakið talsverða athygli í Evrópu.
Zavala hefur þetta eftir sonardóttur líflæknis Francos. Einræðisherrann fékk skotsár á kvið í bardaga í El Biutz, nálægt Ceuta á norðurströnd Afríku, árið 1916. Ævisöguritarar Francos hafa lengi velt því fyrir sér hvort áverkinn hafi haft áhrif á æxlunarfæri hans. Franco eignaðist raunar dóttur, Carmen Franco y Polo, árið 1926.
Á síðasta ári komu fram skjöl með frásögn læknis, sem hlynnti að Adolf Hitler, fyrrum einræðisherra Þýskalands, árið 1916. Hitler fékk þá sár á kviðinn og missti annað eistað.
Þegar Franco særðist var hann liðsforingi í spænska hernum. Árið 1936 tók hann þátt í uppreisn innan spænska hersins sem leiddi til spænsku borgarastyrjaldarinnar. Franco gerðist leiðtogi Falangistaflokksins og þremur árum síðar, árið 1939, fór hann með sigur af hólmi í borgarastyrjöldinni, með aðstoð þýskra nasista og ítalskra fasista.
Franco kom á einræði á Spáni og lýsti því yfir að það væri konungdæmi og hann væri stjórnandi. Árið 1969 tilkynnti hann að Jóhann Karl I, sonarsonur síðasta konungs Spánar, yrði ríkisarfi. Vonaðist Franco til að ríkisarfinn myndi viðhalda stjórnarfarinu en eftir dauða Francos árið 1975 leysti nýi konungurinn upp stofnanir einræðiskerfisins og kom á lýðræði að nýju.