Austurískur kaupsýslumaður ætlar að setja glæsihús sitt á tombólu og nota ágóðann til að fjármagna örlánastarfsemi í þriðja heiminum. Karl Rabeder hyggst bjóða 321 fermetra villu sína með sundlaug, sána og útsýni til Tírólafjalla sem metin er á 1,6 milljónir evra sem happdrættisvinning.
21.999 happdrættismiðar verða til sölu og mun hver þeirra kosta 99 evrur. Svo segist Rabeder, í samtali við austuríska dagblaðið Der Standard, munu setja fjármunina í rekstur samtakanna MyMicroCredit sem hann stofnaði fyrir nokkrum mánuðum.
„Lengi vel hélt ég að auður og lúxus gæfu af sér aukna hamingju. Nú er hinsvegar kominn tími til að selja húsið svo ég geti verið frjáls í nýja lífinu mínu,“ segir Rabeder. Héðan í frá muni hann búa og vinna í leiguíbúð í Innsbruck.
Fjöldi Austurríkismanna hafa reynt að selja íbúðir sínar með því að bjóða þær fram sem happdrættisvinninga. Þeir sjá fram á að fá frekar uppsett verð en með hefðbundinni sölu.