Þýskur áfrýjunarréttur snéri í dag við fimm ára fangelsisdómi yfir of feitum strætisvagnastjóra sem kramdi eiginkonu sína til dauða með því að detta á hana í miðju rifrildi þeirra hjóna.
Rétturinn ákvað að maðurinn, sem er 52 ára og yfir 130 kíló að þyngd, væri sekur um að valda meiðslum konunnar af gáleysi og veitti honum viðvörun.
Hins vegar mat rétturinn sem svo að í raun ætti konan sjálf mesta sök á eigin dauða þar sem hún lét hjá líða að fara til læknis, jafnvel þótt hún hefði hóstað upp blóði í nokkra daga.
Það var í apríl 2006 sem hjónin rifust heiftarlega um tónlist, og meðan á rifrildinu stóð hellti konan bjór yfir fartölvu eiginmanns síns. Í ryskingunum sem fylgdu hrasaði maðurinn og datt ofan á konuna.
Konan var 46 ára og vó minna en helminginn af þyngd eiginmanns síns. Sex vikum eftir atvikið lést hún af völdum brjóstáverka og kom í ljós við krufningu að hún hafði 18 brotin rifbein og nokkra lítra af vökva í lungunum.
Áður hafði héraðsdómur dæmt manninn í fimm ára fangelsi fyrir manndráp.