Leiðtogi tígranna skotinn

Vellupillai Prabhakaran ásamt eiginkonu sinni.
Vellupillai Prabhakaran ásamt eiginkonu sinni. Reuters

Leiðtogi uppreisnarsveita Tamíltígra á Srí Lanka, Velupillai Prabhakaran, var skotinn til bana í morgun er hann reyndi að flýja lið stjórnarhersins. Þetta sagði háttsettur embættismaður í Srí Lanka við AFP fréttastofuna.  Prabhakaran reyndi að flýja í sjúkrabíl ásamt tveimur aðstoðarmönnum en var skotinn á flóttanum. „Hann var drepinn ásamt tveimur öðrum í bílnum. Formleg yfirlýsing verður gefin út síðar,“ sagði embættismaðurinn gegn því að verða ekki nefndur á nafn.

Aðgerðir hersins undanfarna daga hafa miðað að því að  ná Prabhakaran og öðrum yfirmönnunnum Tamóltígranna en uppreisnarmennirnir gáfu á sunnudag út yfirlýsingu um að áratugalöng barátta þeirra fyrir sjálfstæði væri nú á enda.

Átökin hafa kostað yfir 70.000 manns lífið í sjálfsmorðsárásum, sprengingum og aftökum.

Velupillai Prabhakaran, var nefndur „Sólguðinn“ af stuðningsmönnum sínum en stimplaður vægðarlaus maður með mikilmennskubrjálæði af andstæðingum. Hann er talinn vera einn áhrifamesti skæruliðaforingi síðari tíma. Í þriggja áratugalöngum átökum sem miðuðu að því að stofna heimaland fyrir Tamíla í norður og austurhluta Sri Lanka, hafði Prabhakaran tekist að standa stjórnarhernum á sporði hernaðarlega. Sveitir Prabhakaran LTTE, höfðu eigin her, sjóher og flugher.

Menn Prabhakaran tóku yfirleitt enga fanga en voru þekktir fyrir árásir og hryðjuverknað á Srí Lanka sem utan landsins. Prabhakaran var sagður bera ábyrgð á morðinu á fyrrverandi forsætisráðherra Indlands, Rajiv Gandhi, sem sendi indverskar sveitir til að afvopna tígrana árið 1987 en hrökklaðist að lokum þaðan eftir áralangan frumskógarhernað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert