Félagsmálayfirvöld á Bretlandi hafa beðið fósturforeldra afsökunar á því að hafa ekki látið þau vita að ungur maður sem komið var fyrir hjá þeim, hafi áður orðið uppvís að kynferðisbrotum gagnvart börnum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Maðurinn nauðgaði öðru barni hjónanna og sýndi öðru barni þeirra grófa kynferðislega áreitni áður en upp komst um málið.
Félagsmálayfirvöld í Wales vissu af fyrri brotum piltsins og segir forsvarsmaður þeirra enga afsökun vera fyrir því að fólkið skuli ekki hafa verið varað við.
„Nokkrir starfsmenn okkar sinntu hvorki persónulegri né faglegri skyldu sinni til að grípa til aðgerða til verndar börnum. Þetta er sorgarsaga,” segir forsvarsmaðurinn John Maitland Evans.
„Rannsókn hefur leitt í ljós að yfirvöld fylgdust með þessum ungan manni þegar hann var að alast upp og að vitað var um þá hættu sem af honum stafaði. Þeim upplýsingum var haldið til haga og komið á framfæri með eðlilegum hætti innan kerfisins. Þegar honum var komið fyrir er hann var átján ára fylgdu hins vegar ekki allar upplýsingar með um sögu hans og því voru ákvarðanir teknar án tillits til mikilvægra þátta. Við höfum brugðist tveimur börnum illilega og valdið þeim miklum skaða."
Þremur starfsmönnum hefur verið vikið úr starfi vegna málsins og mál annarra eru í rannsókn.
Maðurinn hefur játað glæpi sína gagnvart börnunum og verið dæmdur til að afplána a.m.k. sex ára fangelsisdóm.