Yfirvöld í Sómalíu hafa farið fram á aðstoð alþjóðasamfélagsins við að stofna strandgæslu landsins m.a. með það að markmiði að berjast gegn sjóránum úti fyrir ströndum landsins en þar er ein fjölfarnasta siglingaleið heims. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Nur Mohamed Mohamoud, talsmaður heimavarnarstofnunar Sómalíu, lýsti því yfir á alþjóðlegri ráðstefnu um baráttuna gegn sjóránum í Malasíu að yfirvöld í landinu vilji vinna með alþjóðasamfélaginu að því að binda enda á sjórán á svæðinu. Þá sagði hann strandgæslu nauðsynlega til að koma í veg fyrir ólöglegar veiðar á fiski- og skeldýramiðum landsins.
„Við þurfum öfluga strandgæslu til að vernda sjómenn okkar gegn ólöglegum veiðum, til að koma í veg fyrir að efnaúrgangi sé hent á hafsvæði okkar og til að koma í veg fyrir sjórán,” sagði hann. „Við förum fram á að alþjóðasamfélagið styrki okkur með tækjabúnaði og þjálfun.”
Áhrifamenn í landinu hafa áður gagnrýnt alþjóðasamfélagið vegna aðgerða þeirra gegn sjóránum á hafsvæðinu. Hafa þeir m.a. sakað erlend herskip á svæðinu um að vernda erlenda veiðiþjófa og um að spilla veiði á miðunum.
Þann 15. maí höfðu sjóræningjar rænt 29 skipum úti fyrir ströndum Sómalíu frá áramótum og haldið 472 manns í gíslingu.
Alþjóðasamfélagið hefur heitið yfirvöldum í Sómalíu rúmlega 250 milljónum dollara í fjárhagsaðstoð til að berjast gegn sjóránum en Sameinuðu þjóðirnar munu hafa umsjón með því hvernig fjármagninu verður varið.
Stjórnleysi hefur að mestu ríkt í landinu frá árinu 1991 en bráðabrigðastjórn sem nýtur stuðnings alþjóðasamfélagsins situr þar nú. Hún ræður hins vegar ekki nema hluta landsins þar sem íslamistar hafa náð hlutum þess á sitt vald á ný eftir að eþíópískar hersveitir hurfu frá landinu i byrjum árs.